Lilypie Baby Ticker

Lady-Dee

Lady Dee á flugi.

fimmtudagur, apríl 28, 2005

Þá er sæta íbúðin okkar komin á skrá á. Það hringdi ofuráhugasöm stúlka áðan sem ætlar að koma að skoða! Mér fannst gott hvað hún var almennileg og áhugasöm langar einhvernveginn ekki að selja hverjum sem er.. Þar sem þetta er ekki bara einhver blokk heldur blokkin sem ég bjó líka í þegar ég var lítil.

d.

miðvikudagur, apríl 27, 2005

Jæja þá er íbúðin okkar komin á sölu! Erling klári tók æðislegar myndir af henni. Ég á sannarlega eftir að sakna þessarar íbúðar.. fyrsta íbúðin er alltaf sérstök er það ekki.

d.

þriðjudagur, apríl 26, 2005

Við Erling fórum á eyðsluflipp í gær. Nei ekki í Smáralind heldur á fasteignasölu. Við keyptum okkur íbúð!

d.

fimmtudagur, apríl 21, 2005

Gleðilegt sumar!!!!!!!
Æi sorrí bloggleysið! Það er bara búið að vera brjálað að gera. Við vorum í bústað frá miðvikudegi til mánudags, Erling tók fæðingarorlof. Yndislegt að fara í burtu í rólegheitin.
Við Erling vorum í næst síðasta- og lokaþættinum hjá Hemma í gær. Við sátum fremst í bæði skiptin. Í fyrri þættinum voru Ilmur og Jói á móti Eddu Björg og Gunna. Við vorum Ilmar og Jóa megin og að sjálfsögðu unnu þau! Ég sat beint fyrir aftan Ilmi og gat laumað tveimur svörum að henni, þannig að tvö stig eru algjörlega mín! Í lokaþættinu voru Sigga og Sigrún Eva á móti Þórunni og Ingibjörgu Lár. Það varð jafntefli. Ég var með eitt svar á hreinu en Sigga heyrði ekki hvað ég sagði og boltinn fór yfir til hins liðsins bömmer... Mér fannst skemmtilegra í fyrri þættinum því í seinni voru e-r *helv* fullir KR-ingar sem voru að reyna að gera þáttinn af e-m KR-þætti.
Upptökum var lokið rétt fyrir klukkan 21 og þá fór Erling á karlakvöld og ég að sækja Katrínu Ýri sem var orðin ansi hungruð.

d.

þriðjudagur, apríl 12, 2005

Máni minn.
Máni kisa er dáinn:( Mamma hringdi í mig í gær og sagðist ætla með hann á dýraspítalann í skoðun. Hann var orðinn horaður og hættur að vilja mat en var alltaf þyrstur. Sjúkdómsgreiningin var krabbamein á lokastigi, læknarnarnir sögðu að þeir yrðum að binda endi á þjáningar hans. Sem þeir gerðu.
Í lok árs 1987 flutti ég ásamt mömmu og pabba og systkinum mínum í Álfaheiðina.
Í mars árið eftir gaut kötturinn Mjása í næstu götu nokkra kettlinga. Eigendur Mjásu nefndu þrjá af kettlingunum, Perlu, Mána og Depil. Við vinkona mín vorum tíðir gestir á heimili kattanna. Við klöppuðum þeim og knúsuðum þá. Svo fer svo að foreldrar vinkonu minnar gáfu henni leyfi til að eignast Perlu. Mig langaði líka í kettling. En mamma og pabbi tóku það ekki í mál þó svo að ég (þá 11 ára) gæfi stór loforð um að ég myndi sko hugsa algjörlega um hann. Þá fór ég að lúmskast við að fá kettlinginn Mána lánaðann í þeirri vona að mömmu og pabba færi að þykja vænt um hann. Loksins létu þau tilleiðast, ég man hve ég var ótrúlega glöð! Ég fékk ekki nóg af Mána-kisu. Hann fór með út um allt. Við Anna systir keyrðum hann í barnavagni um hverfið stundum voru Perla systir hans og vinkona mín með. Ef við fórum í sumarbústaðinn kom Máni með. Það tókst þó strax sérstakt samband milli hans og Dagnýjar systur minnar sem var aðeins tveggja ára.
Mjása mamma kettlinganna kom oft og gaf þeim að drekka, það var falleg sjón að sjá hana liggja úti í guðs grænni náttúrinni og gefa afkvæmum sínum. Einn daginn hætti hún bara að koma þá heyrðist að hún hefði farið að heiman. Kannski fór hún að leita fressins sem var pabbi Mána og Perlu. Það hefði þó verið til lítils því heyrst hafði að kýr hefði stigið ofan á hann og hann drepist samstundist. En Mjása sást ekki meir.
Þegar Máni var nokkra ára var eitt sinn bankað hjá okkur og ég spurð hvort ég ætti köttinn sem lægi slasaður undir tré. Hjartað mitt tók kipp og gekk ég hratt að trénu þar lá Máni minn í skugganum. Maðurinn sagðist hafa séð hað það var keyrt á hann en hann hefði þrátt fyrir það dregið á eftir sér fæturna og reynt að komast heim. Það tókst næstum. Við fórum með hann á dýraspítalann og þá kom í ljós að hann var mjaðmagrindar- og kjálkabrotinn og lungun höfðu fallið saman í áfallinu. Tíminn einn gæti leitt í ljós hvort hann myndi ná sér. Nokkrum sinnum fórum við vinkona mín í strætó upp á dýraspítala til að heimsækja Mána. Mér fannst agalegt að sjá hann í búri og gat ekki beðið eftir að hann kæmi heim. Viti menn hann náði sér að fullu en lærði sína lexíu. Ég hef amk ekki séð neinn annan kött stoppa og líta til beggja hliða áður en hann gengur yfir götu. En það gerði Máni.
Máni var alltaf ótrúlega kelinn og mikið fyrir fólk. Hann kom alltaf hlaupandi á móti mér þegar ég kom í heimsókn eftir að ég var flutt að heiman. Ég er viss um að hann geri það enn frá öðrum stað.
Blessuð sé minning hans við komum öll til með að sakna hans sárt. Hann hefur verið órjúfanlegur hluti af okkar lífi í 17 ár.

d.

mánudagur, apríl 11, 2005

Innidagur í dag! Verða að þrífa og þvo þvott. Ekki veitir af... Erum að fara í bústað á miðvikudag og ég bara verð að hafa allt á hreinu áður.

þrif, þvottur og fjör

d.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Vorum að koma heim eftir frábæran dag:) Fórum fyrst í fermingarveislu sem var ótrúlega skemmtileg, með rosa góðum veitingum! Þaðan héldum við til Sigrúnar Ernu og Jóns Gests þar sem allur vinahópurinn hittist og pantaði pizzu. Hrikalega næs. Því miður komust Inga Dís og co ekki. En Inga er ófrísk sem auðvitað er frábært en það sem er ekki frábært er hvað hún er hrikalega veik. Er bara komin með vottorð frá vinnunni og er bara heima með ógleði og uppköst, ekki sælla minninga:s Ég sendi henni góða strauma dag hvern...

d.

laugardagur, apríl 09, 2005

Það er búið að vera svoooo mikið að gera... Enginn tími til að blogga! En núna er smá stund á milli stríða og viti menn ég hef EKKERT að segja ha ha!!

d.

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Skemmtilegir dagar.

Það er ekkert lítið gaman hjá okkur Katrínu Ýri (Ýr beygist eins og Íris;)) þessa dagana. Í gær fórum við, ásamt Erling, í matarboð hjá Eddu, Hannesi og Baldvini Þór, sá síðastnefni var að vísu sofandi:p Þar fengum við dýrindis kjúklingarétt takk fyrir okkur:D Í dag erum við Katrín Ýr að fara að hitta Siggu Lísu, Röggu Dís, Ragnar Otta og Úlfheiði. Á morgun förum við á mömmumorgna í kirkjunni með Sigrúnu Ernu og Óla Þór og á fimmtudaginn er mömmuhópur. Gaman, gaman að hafa nóg að gera:D

d.

mánudagur, apríl 04, 2005

Helgin var frábær:) Á laugardagskvöld fórum við Erling á velheppnaða árshátíð KB-Banka og skemmtum okkur mjög vel. Ég átti að vísu erfitt í byrjun þar sem Katrín mín Ýr var ekkert sérstaklega sátt við að láta passa sig og þurfa að drekka úr pela. En um leið og fréttin um að hún væri sofnuð barst var eins og þungu fargi af mér létt og ég fór beint út á dansgólfið og dansaði af fullum krafti við Stórsveit Kb-banka, sem saman stóð af söngvurum eins og; Stebba Hilmars, Jónsa, Regínu, Jóni Ólafs og Ragga Bjarna. Við Erling leigðum okkur bæði föt lentum að vísu í smá veseni. Ég steig á kjólinn og reif hann neðst og fékk ofan á mig kjöt með sósu. Erling fékk svo stóra saumsprettu á buxurnar á smókingnum sem hann leigði. Veit ekki alveg hvað við segjum við leiguna vegna þessara óhappa:p Hef samt engar áhyggjur af þessu....
Læt nokkrar myndir fylgja:)

d.

p.s. það er hægt að klikka á myndirnar til að sjá þær stærri.

föstudagur, apríl 01, 2005

Er farin út í veðurblíðuna. Ætla í göngutúr með Sigrúnu Ernu og Óla Þór. Farin út frá draslinu 4. daginn í röð;)
Svo er brúnkumeðferð og kjólaleiga í dag og árshátíð á morgun...

líf og fjör

d.