Lilypie Baby Ticker

Lady-Dee

Lady Dee á flugi.

þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Það er næs að vera búin að minnka við sig vinnuna. Ég á samt enn og alltaf við sama vandamálið að stríða, ég á svooooo erfitt með að vakna! Ég gæti samt ekki haft betri vekjaraklukku en Erling. Hann talar við mig undirljúft og passar sig á að hafa engin skær ljós í íbúðinni, kemur sér vel að vera með marga dimmera. Það hjálpar mér samt mikið að vita það að ég þarf bara rétt aðeins að mæta í 2 klst eða svo.
Ég kenndi t.d. bara frá 9:30 til 11:00 í morgun. Edda og Baldvin náðu í mig í vinnuna og við fórum og fengum okkur pizzu á 67. Það var yndislegt, fyrir utan að Baldvin fór að hágráta um leið og ég kom inn í bílinn, ég var alveg miður mín. Nennti sko ekkert að hafa þessa kerlingu;) Ég skildi við þau mæðgin rétt rúmlega tvö og brunaði þá inn í Hafnarfjörð og samdi eitt stykki jóladans fyrir fimleikastelpurnar mínar. Frekar erfitt að semja dans óléttur en það hófst þó, ég hef þó gert betur ég ætla ekki að segja annað. En dömurnar voru ánægðar það er fyrir öllu. Þær fá að vera í pilsum með borða í hárinu og þeim finnst æði að lagið sé Ég hlakka svo til....;) Þær voru nefnilega jólasveinar í fyrra og tröll árið þar á undan. "Dögg, megum við ekki bara vera stelpur núna..." Hí hí...

d.

mánudagur, nóvember 29, 2004


Þetta var frábær helgi. Bjarkarstelpurnar mínar kepptu í fimleikum og fengu 5 gull og 3 brons:) Á laugardagskvöld fórum við Erling ásamt öllum vinahópnum á jólahlaðborð í Skíðaskálanum. Við vorum til miðnættis þá fór Erling í bæinn en ég heim í kojs þar sem ég þurfti að vakna eldsnemma vegna fimleikamótsins. Í gærkvöldi fórum við í Blómaval keyptum efni í aðventukransinn hér að ofan, sáum að það var mikið ódýrara og auk þess flottara að gera sjálfur. Þeir sem var eitthvað varið í kostuðu 10.000 hvaða rugl er það??? Ég var heima í dag... Bara með tærnar upp í loft, gat ekki farið í vinnu þar sem ég vaknaði eins og bjúga í morgun, hef aldrei séð annað eins.

d.

föstudagur, nóvember 26, 2004

Sigrún Erna og Jón Gestur áttu keisarastrák í morgun. Hann var tæpir 13 merkur og 49 cm . Get ekki beðið eftir að fá að knúsa hann...

d.

Sigrún Erna er í þessum töluðu orðum á fæðingardeildinni að eignast barnið sitt. Það verður tekið með keisara og mun koma í heiminn klukkan 09:45. Skrítið að hún verði allt í einu ekki ólétt með mér lengur.
Frá og með deginum í dag er ég búin að minnka við mig vinnuna er komin í 50%. Það leggst mjög vel í mig, fæ að sofa lengur alla daga nema föstudaga. Veitir ekki af því að safna upp orku.

d.

miðvikudagur, nóvember 24, 2004

Nemandi spurði handmenntakennara skólans: "Hver er þessi stelpa með síða ljósa hárið sem er að vinna hérna?"
Kennari: "Já, hún Anna Margrét"
Nemandi: "Hún er svo íþróttamannslega vaxin".
Kennari: "Já það er ekki skrítið hún er systir hennar Daggar og hún er líka svona vaxin."
Nemandi: "Hún DÖGG!!! Nau, veistu hvað hún er orðin feit eftir verkfallið!?"

d.

þriðjudagur, nóvember 23, 2004Jólin, jólin alls staðar
Jólin, jólin alls staðar
með jólagleði og gjafirnar.
Börnin stóreyg standa hjá
og stara jólaljósin á.
Jólaklukka boðskap ber
um bjarta framtíð handa þér
og brátt á himni hækkar sól,
við höldum heilög jól.
Svei mér þá held að jólaskapið sé bara að koma. Ég var að föndra með börnunum áðan og það var eitthvað svo yndislegt að dúlla sér bara með jólatónlist af 94,3 undir. Ekki spillir fyrir að Erling bakaði súkkúlaðibitakökur í gær, þannig að við sátum í eldhúsinu, ásamt ömmu og Önnu frænku sem kíktu við, og gæddum okkur á dúnmjúkum nýbökuðum kökum og mjólkurglasi við kertaljós. Gæti það verið betra. Sá að þau í blokkinni á móti eru byrjuð að setja upp jólaseríur held að ég nái í mínar fljótlega... Sérstaklega ef snjóinn ætlar að rigna burt.
d. -komin í jólaskap

mánudagur, nóvember 22, 2004

Ótrúlega góður mánudagsmorgun.. "Bara" -4 sem verður að teljast heitt miðað við síðastliðna daga;). Helgin fór að mestu í afslöppun, enda óléttan farin að segja verulega til sín. Fór í Kringluna, Smáralind og í afmæli á föstudagskvöld og var allan laugardaginn að jafna mig. Sunnudagur átti að fara í jólaþrif. Ég byrjaði á baðherberginu af fullum krafti, tók út úr skápum og henti líkt og ég fengi borgað fyrir það. Að því loknu var ég bara svoooo uppgefin að ég varð að hvíla mig, með ólíkindum hvað ég er orkulítil...

d.

föstudagur, nóvember 19, 2004

Enn ein helgin komin. Ekki leiðinlegt það. Við Erling fórum í bíó í gær á Bridget Jones, þetta var þriðja bíóferðin á einni viku. Eins gott að nota tímann áður en krílið kemur. Annars gerist lítið þessa dagana, sama rútínan. Ég fer í vinnu kem svo heim úrvinda og bara verð að leggja mig, sérstaklega ef ég á að geta farið í bíó eða annað á kvöldin.

d. með lítið blóð.

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Mamma er orðin þvílíkt dugleg að blogga þið verðið að kíkja á síðuna hennar hún á góða spretti:)

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Móðir mín er snillingur, en henni hefur ekki tekist sérstaklega vel að tileinka sér þau mörgu nýyrði sem ungt fólk notar. Á sunnudag vorum við búin að ákveða að fara í bíó. Það er bara oft þannig að þegar það er alveg að koma að því þá hættir mamma við á síðustu stundu, sérstaklega ef stefnan hefur verið tekin á tíu-bíó. Því sagði ég við hana: "Mamma, þú mátt ekki beila". Hún var hálf skrítin á svipin og svaraði um hæl: "Nei, nei." Til að vera viss þá sagði ég: "Mamma, þú veist hvað það þýðir." Það stóð ekki á svari: "Já, já það þýðir að kúka".

Ég eyddi amk 5 mínútum fyrir utan skólann í morgun. Ekki í að hugsa eða fylgjast með börnum leika sér í nýföllnum snjónum. Nei, heldur í að mála á mig andlit. Það var víst til lítis þar sem sú fyrsta sem ég mætti á þessum ágæta vinnustað mínum sagði: "Dögg, hva voða ertu þreytuleg í dag."

d.

þriðjudagur, nóvember 16, 2004

Brjálað að gera á næstunni;)

19. nóv Erling í afmæli hjá Kalla
27. nóv Jólahlaðborð í Skíðaskálanum með vinahópnum
28. nóv Aðventumót í fimleikum pæjurnar mínar keppa
1. des Settur dagur hjá Sigrúnu Ernu
2. des Amma 75 ára
4. des Jólahlaðborð KB-Banka
10. des Jólahlaðborð Digranesskóla

d. sem fær meiri bjúg af því einu að hugsa um öll þessi jólahlaðborð...mánudagur, nóvember 15, 2004

Fræðslustjórinn í Kópavogi vill fá vottorð hjá öllum þeim kennurum sem ekki mættu til vinnu í dag.

d.

sunnudagur, nóvember 14, 2004

Helgin var fín. Erling kom heim í gær með ösköp af dóti: ferðarúm, ömmustól, barnapíu, leikteppi, sængurfatasett, himnasæng, hlífarkant, flísföt, samfellur, sokkabuxur... svo eitthvað sé nefnt.
Það gafst þó ekki mikill tími til að skoða þetta almennilega fyrr en í dag þar sem við nánast brunuðum strax upp á Skaga í afmæli. Hún Nanna hans Lúlla varð þrítug. Þetta var flott veisla hjá stelpunni, dýrindis veitingar og örugglega góð bolla:p Við vorum þó komin heim rétt um miðnætti og fórum þá fljótlega að lúlla. Við erum orðin eins og gamalt fólk, förum snemma að sofa og vöknum snemma. Í morgun dúllaði ég mér við að breyta og bæta heimasíðuna hennar mömmu. Eftir hádegið komu svo Anna og Dagný systur mínar í Brunch, ég hjálpaði svo þeirri yngri með ritgerð sem hún á að skila á morgun. Sú fjallar um verkfall kennara, hlutverk ríkisstjórnar, lagasetningu og fleira. Mér finnst persónulega heldur snemmt að vera að skrifa ritgerð um verkfallið. Það hefur verið leiðinlegt fyrir þá sem höfðu l0kið við sína á fimmtudag sú var orðin úrelt á laugardag þegar lögin gengu í gildi.

d.

Þá hefst ný vinnuvika á morgun. Mér finnst fínt að vera að byrja að vinna en hefði þó viljað að ríkisstjórnin hefði reynt aðra leið. Mér leiðist hvað allir kennarar í kringum mig eru reiðir en þó meira leiðir. Ég veit ekki hvað kennarar í mínum skóla ætla að gera í sambandi við morgundaginn, þ.e. hvort þeir ætli að mæta eður ei. Ég persónulega tel það ekki rétta leið að mæta ekki. Held að manni liði asnalega að sitja heima, fullfrískur og faktískt eiga að vera mættur í vinnu.

d.

föstudagur, nóvember 12, 2004

Ég fór í bíó í gær á The Grudge. Hún er viðbjóður... Púff þetta var að vísu allt í lagi meðan á því stóð en öllu verra þegar ég átti að fara sofa EIN! Fór því og gisti hjá mömmu það hentaði ágætlega þar sem pabbi var út á landi og ég gat gist upp í og allt. Máni kisa var hissa að sjá þennan "gamla" heimilismeðlim mættan upp í rúm. Hann kyssti mig í bak og fyrir og malaði heil ósköp. Það var ekki laust við að ég sakni þess að eiga kisu.
Ég er búin að heyra frá Erling nokkrum sinnum í dag. Innkaupin gengu svona líka glimrandi hjá þeim Einsa. Þeir keyptu heil ósköp að dóti sem er börnum nauðsynlegt.

d.

P.s. Nenni ekki að tala um lagafrumvarpið. Er brjáluð en læt þetta ekki eyðileggja fyrir mér.

fimmtudagur, nóvember 11, 2004

Jæja þá er Erling farinn til Köben. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að útskýra hve mikið mig langaði með OMG. Það er víst allt of seint, minns orðin alltof óléttur. Hefði þurft að fá undanþágu og eitthvað. Það er sannarlega ekki þess virði að vera að æða ótryggður til útlanda, það kemur víst önnur ferð eftir þessa og auk þess er þetta mjög stutt stopp.

d.

þriðjudagur, nóvember 09, 2004

Jæja loksins komst ég inn á bloggið mitt. Var að reyna að blogga í gær en lenti alltaf hjá e-m Kormáki Bragasyni. Veit ekki hvað málið var.
Þá er ég komin aftur í verkfall hef reyndar ekki trú á að þessi lota verði löng. En ef það verður ekki almennilega samið þá er ég alvarlega að hugsa um að finna mér annan starfsvettvang. Samkvæmt miðlunartillögunni átti ég að hækka um 20 þús frá því núna þar til 2008 þá orðin 32ja ára með 9 ára starfsreynslu. En nei alveg rétt þeir meta ekki starfsreynslu bara lífaldur. Hvaða sammgirni er það? Þannig að ef e-r sem er jafngamall mér fer í Kennaraháskólann núna þá fer sá hinn sami, við útskrift, beint á sömu laun og ég sem verð þá með 8 ára starfsreynslu.

d.

föstudagur, nóvember 05, 2004

Með tárin í augunum


Við fórum á Landspítalann í gær. Þar skoðuðum við sængurkvennagang, Hreiðrið, fæðingagang og fleira. Þegar okkur voru sýndar tangir þá réð ég ekki við neitt og tárin fóru að streyma.

d.

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Ég var í reglulega saumaklúbbnum í gær. Alltaf gaman og alltaf fullt af fréttum. Svo er ég sjálf með klúbb í kvöld, kvíði hálf fyrir þar sem heimilið er í rúst og ég að vinna til klukkan 17:00. Á líka eftir að baka og elda.. dömurnar koma klukkan 20:00 þannig að það verður allt á fullu í Ástúninu milli klukkan 17 og 20.

d.

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Frábær dagur, mikið betri en í gær. Ástæða: Ég svaf í tæpa 13 tíma! Svefn er allra meina bót.

d.

P.s. Þegar Erling fór að sofa var ég búin að vera rotuð í rúma 6 tíma;)

mánudagur, nóvember 01, 2004

Það er svo furðulegt þó svo að það hafi verið 6 vikna verkfall er líkt og það hafi bara verið helgarfrí. Ekkert skrítið að hitta börnin aftur eða neitt.

d.

P.s. Það er allt brjálað yfir miðlunartillögunni mér heyrist að það sé enginn að fara að samþykkja þetta. Þannig að já það stefnir allt í áframhaldandi verkfall.