Lilypie Baby Ticker

Lady-Dee

Lady Dee á flugi.

föstudagur, október 29, 2004

Þá er búið að aflýsa verkfalli. Ég hafði ekki hugmynd um það og svaf svefni hinna réttlátu þegar síminn vakti mig rétt um tíu. Á línunni var skólastjórinn og boðaði mig á fund klukkan 10:30, ég var alveg rugluð og sagði: "Ha, má það?" það stóð ekki á svari: "Já, því það er búið að aflýsa verkfallinu."
Þetta fór algjörlega fram hjá mér þó svo að þetta hafi verið tilkynnt seint í gærkvöldi. Þetta er þó bara frestun ef 50% kennara samþykkja ekki þá hefst verkfall að nýju 8. nóvember. Hér eru allir frekar súrir ekki yfir því að vera komnir í vinnuna nei, heldur vegna þess að launadeildin neitar að greiða okkur krónu fyrr en það er búið að greiða atkvæði. Mér finnst það lélegt af þeim. Þar sem við erum á fyrirframgreiddum launum eigum við alltaf að fá greitt fyrirfram. En svona er Ísland í dag.

d.

fimmtudagur, október 28, 2004

Við erum að kaupa nýjan bíl, jibbí! Fáum hann á morgun, ég á samt eftir að sakna gamla hann er búinn að reynast einstaklega vel.

d.

miðvikudagur, október 27, 2004

Ég var með gesti í allan dag:p Voða gaman. Eldaði súpa fékk uppskriftina hjá Ýri ég kýs að kalla hana verkfallssúpuna. Hún er hrikalega góð, endilega prófiði!

Verkfallssúpa:
1 laukur
8 gulrætur
8 kartöflur
1/2 blómkálshaus
3 hvítlauksrif
3 kubbar grænmetiskraftur
2 dósir stewed tomatos
1 dós tómatpurré
3 dl pasta

mýkið laukinn upp úr olíu í pottinum, bætið öllu grænmeti út í setjið vatnið og allt annað nema pastað. Sjóðið í 20 mín bætið pastanu út í sjóðið í 10 mín í viðbót. Einfaldara gæti það ekki verið og auk þess er þetta mjög hollt:)

d.

Einn af fylgifiskum seinni hluta minnar meðgöngu eru andvökunætur. Núna er ég tam búin að breyta ótal oft um stellingar og allt kemur fyrir ekki. ÉG BARA GET EKKI SOFNAÐ!! Var að þrífa baðherbergið rétt í þessu. Held að ég taki bara eldhúsið næst. Hrikalegt.

d.

þriðjudagur, október 26, 2004

Nordica-Dagur.

Sunnudagurinn var alveg frábær hjá okkur Erling. Við byrjuðum daginn á að fara á bókasafnið að ná okkur í gott lesefni. Bókasafn Kópavogs er fínasta safn en ég á þó erfitt með að vera lengi þar inni þar sem það er miður góð lykt á 1. hæð hússins sem hýsir Náttúrugripasafn Kópavogs. Það munar alltaf minnstu að ég kasti upp þegar ég kem inn. Frekar glatað fyrir svona glænýtt safn.
Bókasafn Kópavogs - Ekki staður fyrir klígjugjarna...
Næst lá leið okkar á Konditoriet þar sem við fengum okkur Brunch. Að því loknu fórum við á Nordica. Við byrjuðum í SPA-deildinni nánar tiltekið í pottunum þar sem við fengum bæði herðanudd og fínerí. Ótrúlega kósí á þessu pottasvæði. Svo tók alvöru nuddið við. Ég fór í meðgöngunudd og Erling í heilnudd. Alveg frábær uppgvötun þessi meðgöngubekkur og mæli ég með honum fyrir allar ófrískar konur. Hann er með þremur götum, tvö fyrir brjóst og eitt fyrir bumbu. Yndislegt að GETA legið á maganum án þess að þykja það óþægilegt. Nuddaranum leist ekkert á ástandið á mér og sagði að ég yrði að koma einu sinni í viku það sem eftir væri af meðgöngunni. Það væri notalegt, en ég held að ég bara verði að verja verkfallskrónunum í eitthvað annað. En ég ætla amk einu sinni en ef ekki tvisvar... Koma tímar koma ráð;)
Um kvöldið fórum við út að borða á Café Óperu og fengum alveg guðdómlegan mat. Humarsúpu í forrétt og nautafilé með villisveppasósu í aðalrétt. Mett og fín fórum við svo aftur á hótelið þar sem við sátum við barinn og fengum okkur einn léttan (þýðir Erling ég fékk heitt kakó:p). Við enduðum svo "ferðina" á dýrindis morgunmat a la Nordica. Án efa sá besti sem ég hef fengið í langan langan tíma.

d.

föstudagur, október 22, 2004

Ég kynni nýjan bloggara til leiks. Sú heitir Ingibjörg Ottesen og er að eigin sögn elsta lifandi skólasystir mín.
Við vorum saman í Kennó, hún var ein af þeim sem sat alltaf fremst á öllum fyrirlestrum og sagði reynslusögur á meðan ég kaus heldur að sitja mun aftar og sofa.
Á Kennóárunum fórum við Imba ásamt nokkrum öðrum saman á e-a bókmenntaráðstefnu (sem ég nb. veit ekki enn um hvað fjallaði) í Bergen. Við lögðum það á Imbu að redda fyrir okkur gistingu sem hún og gerði. Gististaðurinn var mjög ódýr, í miðbænum og morgunmatur var innifalinn. Þannig að þetta var alveg kjörið sérstaklega fyrir unga námsmenn og djammara. Eftir ráðstefnu á daginn sváfum við Dagbjört yfirleitt á meðan Imba rölti um Bergen og lét hvarfla að sér að kaupa fokdýra pelsa. Hún lét eitt sinn mas næstum til leiðast og reyndi eftir fremsta megni að sannfæra okkur. "Stelpur hann kostar 500 þús en ég fæ hann á 390 þús, á ég ekki bara að setja hann á VISA?" Við hlógum bara og reyndum að telja hana af þessu. Að gamni fórum við svo í Pelsabúðina tókum myndir af okkur í pelsinum stækkuðum og gáfum henni þegar heim var komið. Þetta er það næsta sem þú kemst við að eiga hann, skrifuðum við á myndina;)
Ég var ekki með Imbu í herbergi en við Dagbjört herbergisfélagi minn gættum þess að vekja hana ALLTAF þegar við komum heim, ölvaðar, í banastuði seint og um síðir. Því við vissum að hún þjáðist af kæfisvefni;)En það sem við vissum ekki fyrr en við brottför var að við höfðum gist á hóruhúsi í heila viku.
Lov jú Imba
d.

Ég á besta kærasta í heimi! Ekki nóg með að hann hafi farið með mér á stelpumynd í gærkvöldi heldur hringdi hann rétt fyrir klukkan eitt í dag og sagði mér að vera tilbúin klukkan tuttugu mínútur yfir. Ég varð bara eitt stórt spurningarmerki en gerði bara eins og mér var sagt. Rétt um hálf tvö kom svo Dagný systir mín og sótti mig. Ég vissi ekkert hvert ég var að fara og hún vildi ekkert segja. Áður en ég vissi af vorum við fyrir utan Glæsibæ og hún sagði mér að ég væri að fara í strípur og klippingu á Kúltúru. Ekki slæmt, sérstaklega þar sem ég hef hvorugt gert síðan í maí! Núna er ég með nýtt hár og ekkert smá fín:D Á sunnudaginn er hann svo að bjóða mér á Nordica í meðgöngunudd, pottanudd og hvíld á SPA-svæðinu OG nótt í e-u mega Deluxe-herbergi:D Ég hlakka ekkert lítið til.

d.

Þá hefur viðræðum verið frestað í 2 vikur í viðbót! Púff.... Þetta gerir mann auðvitað geðveikan, það geðveikan að Erling fór með mig á stelpumynd dauðans í gær. Shall we dance!

fimmtudagur, október 21, 2004

Dögg gamalmenni.

Ég fór á útifund ásamt mjög mörgum öðrum kennurum í gær. Það var gengið frá Hlemmi niður á Ingólfstorg. Við Ingilaug samstarfskona mín héldum á mótmælaspjaldi sem á stóð "Ekkert er ókeypis". Það var mikið rok í gær, því virkaði spjaldið eins og segl og stundum var ég hrædd um að takast á loft þó svo ég sé ólétt og ólétt;) Þegar við gegnum fram hjá Kaffi Austurstræti þustu nokkrir þaðan út sumir mas á sokkunum og kölluðu: "Þetta ætlum við sko að styðja". Þegar baráttufundinum var lokið var gengið í gegnum Ráðhús Reykjavíkur og eftir það var formlegri dagskrá lokið. Þá tók við píslarganga í rokinu til baka upp Laugaveginn. Þegar, loksins, heim var komið leið mér líkt og ég hefði orðið undir valtara. Lagðist bara í sófann og gat ekkert gert EKKERT. Ég er að drepast í líkamanum! Í öxlunum eftir að halda svo vel við mótmælaspjaldið og í bakinu og náranum eftir gönguna. Nóttin var hrikaleg.

d.

miðvikudagur, október 20, 2004

Misskilningur.

Fyrir 8 árum var ég Au-pair í Þýskalandi. Á hverjum degi hringdi Au-Pair mamman í mig og sagði: "Was machst du heute?" Þetta var yfirleitt fyrri hluta dags á þeim tíma var ég yfirleitt að vinna húsverk. Dag einn þegar hún spurði svaraði ég: "Ich figge." (ætlaði að segjast vera að sópa). Hún svaraði; "Wie bitte" og skellti upp úr." Ég skildi ekkert í neinu fyrr en ég fletti upp í orðabók og komst að því að figgen þýðir að ríða ekki að sópa. Sögning fyrir að sópa er fegen eða "Ich fege/Ich figge". Alveg nógu líkt;)

d.

þriðjudagur, október 19, 2004

Eitthvað til að hlakka til:)


Ljós punktur í tilveruna. Var rétt í þessu að panta jólahlaðborð fyrir allan vinahópinn þann 27. nóvember næst komandi! Get ekki beðið.

d.

Ég er algjörlega dottin í nenni ekki neinu gírinn. Þetta verkfall er hreinlega að drepa mig. Nenni bara engu:( Hætt að vakna snemma sé hreinlega engan tilgang í því, hætt að fara í verkfallsmiðstöðina´, því það er hreinlega ekkert að frétta.

d. að bilast.

mánudagur, október 18, 2004

Lítil frænka var skírð á laugardaginn. Hún fékk nafnið Júlía.
d.

Brrrrrrrrrrr, það er kalt í dag... Held að ég haldi mig bara inni. Hef sjaldan verið ánægðari með að vera ekki útistarfsmaður.

d.

miðvikudagur, október 13, 2004

Þá ætla samninganefndir ekki að funda fyrr en á mánudag! Ég held að ég segi líkt og svartsýnustu menn, verkfallið verður líkast til fram að jólum. Ætli ég fari nokkuð að vinna aftur áður en barnið fæðist. Það versta er að verkfallstekjurnar eiga eftir að skerða fæðingarorlofstekjur mínar. Sem er auðvitað fáránlegt.

Annars fékk ég krúttlegt símtal frá stelpunum í bekknum mínum í dag. "Hæ, Dögg þetta eru stelpurnar þínar, við erum farnar fyrir utan Fannborg að mótmæla verkfallinu. Við nennum þessu ekki lengur. Við erum sko búnar að hringja í Séð og heyrt og Kópavogspóstinn og erum að reyna að ná í sjónvarpið."

d.

þriðjudagur, október 12, 2004

Uhhmmm, þá er dýrindis máltíð lokið. Á matseðlinum var:

Dönsk Royal partyskinka
Brúnaðar kartöflur
Sveppasósa
Ýmis meðlæti
malt og appelsín.

Hrikalega gott og það besta er að öllum frágangi er einnig lokið...

Farið varlega í myrkrinu.

d.


mánudagur, október 11, 2004

Hér með bæti ég Jóhönnu Bjarnarson æskuvinkonu minni á listann yfir fallega fólkið. Við Jóhanna brölluðum margt á okkar yngri árum. Það sem stendur upp úr er hvernig við, á dramatískan hátt, kvöddum æskuna. Þetta var sumarið '89. Við klæddum okkur upp í pollaföt, húfu, trefil og vettlinga, fengum lánuð BMX hjól og þustum af stað. Leið okkar lá í það sem var þá kallað nýja hverfið, suðurhlíðar Kópavogs. Þar þefuðum við upp alla þá drullupolla sem fyrirfundust á svæðinu og brunuðum beint ofan í þá. Svo kölluðum við "Bless æska, bless æska" alveg eins og fífl og vonuðum svo í huganum að enginn í 8. eða 9. bekk sæi til þessarra klikkuðu 7. bekkinga. Heim komum við svo í hláturskasti og drullugar upp fyrir haus. Þetta hef ég ekki gert hvorki fyrr né síðar.
Bjóðum Jóhönnu velkomna.

d.

Christopher Reeve AKA Súperman er látinn langt fyrir aldur fram.
Ég man það líkt og .það hafi gerst í gær þegar við mamma fórum á Súperman í bíó. Ég var það ung að ég trúði virkilega að hann væri til. Blessuð sé minning hans.

d.

sunnudagur, október 10, 2004

Þá er krílið í bumbunni komið með eigin síðu. Endilega kíkið þið!
Bumbukrílið

d.

laugardagur, október 09, 2004

Rosalega er mikið af fíflum í idolinu í ár. Ég sem hélt að það myndu fleiri góðir mæta. Það þarf þó ekki mikið til að slá Kalla Bjarna við. Diskurinn hans sökkar feitt. Hef að vísu ekki hlustað á hann í heild en það sem ég hef heyrt er hörmung!

d.

fimmtudagur, október 07, 2004

Það væri allt í lagi að vera í verkfalli ef maður ætti nógan pening. Þá gæti maður bara farið út að borða í hádeginu og verið í Kringlunni og Smáralindinni til skiptist og verslað sér föt og fylgihluti. En það er súrt að geta engu eytt og eiga ekkert til að eyða.

d.

miðvikudagur, október 06, 2004

Danmerkursystur þær, Ragga Dís og Sigga Lísa áttu börn með 11 daga millibili. Innilega til hamingju stelpur:) Þar með er fæðingarrunu lokið, amk í bili. Nanna, Guðný, Eygló, Drífa, Tobba, Helga Huld, Eva Úlla, Ragga Dís, Hjördís og Sigga Lísa allar búnar! Núna er Sigrún Erna næst, þá ég og loks Perla.

d.
Afkvæmi Siggu Lísu og Röggu Dísar.

mánudagur, október 04, 2004

Ég þoli ekki:

Þegar maður á að mæta einhversstaðar seinni partinn og verður það upptekinn af því að maður gerir ekkert allan daginn.

d. þreytt á verkfalli

laugardagur, október 02, 2004

Fékk launaseðilinn minn í gær. Á honum stóð laun alls: -76.413. Þar sem ég er á fyrirfram greiddum launum skulda ég Kópavogsbæ tæpar áttatíuþúsund krónur! Hels verkfall, segi ekki annað.
Myndi drekkja sorgum mínum í vodkaflösku í kvöld en geri barninu það ekki.

d.

föstudagur, október 01, 2004

Konukvöld Létt


Létt 96,7 stóð fyrir kvennakvöldi á Hótel Íslandi í gær. Við vinkonurnar fengum miða á þá samkomu og vorum spenntar að fara. Húsið átti að opna klukkan 20:00 og við ákváðum að vera tímalega. Rétt yfir átta keyrðum við inn Ármúlann og trúðum vart eigin augum. Röðin fyrir utan Hótel Ísland náði út á horn hjá Síðumúla. Við nenntum ómögulega að fara í röðina þannig að við tókum einn rúnt og komum aftur eftir hálftíma. Þá var að vísu enn röð en mikið styttri þannig að víð létum okkur hafa það og fórum í hana. Við þurftum að vísu ekki að bíða lengi. En Guð minn góður þvílík stappa!! Og sjensinn bensinn að fá nokkuð sæti, troðningurinn minnti á ball sem við fórum á á sama stað áramótin ´93. Við létum þó ekki bugast og rétt áður en skemmtiatriðin byrjuðu "hreiðruðum" við um okkur í stiganum. Ég get ekki sagt að það hafi verið með öllu þægilegt að sitja þar. Að sjálfsögðu var fólk (konur) á eilífu rápi upp og niður stigann, þannig að trekk í trekk var stigið á mig eða sparkað í bakið á mér. Það endaði með því að við gáfumst upp og fórum heim.
Það er ekki að hægt að bjóða fólki upp á slíkt held að Létt verði að endurskoða þetta kvöld. Það hefur eflaust verið gaman hjá þessum örfáu sem voru með sæti en stemmningin í göngunum og í stiganum var ömurleg. Mín tilfinning er sú að það hafi verið gefnir um 5000 miðar með von um að það myndu ekki allir koma. En svo bara vúbbs streymdi endalaust að. Hvernig er með eldvarnir á svona kvöldum? Má bara troða og troða? Ég veit ekki betur en það hafi tekið KB-banka nokkra daga að fá leyfi hjá eldvörnum til þess að halda árshátíð með 1200 manns.

d að drepast í bakinu.