Lilypie Baby Ticker

Lady-Dee

Lady Dee á flugi.

miðvikudagur, desember 24, 2003Gleðileg jól:)

d.

sunnudagur, desember 21, 2003

Vá hvað ég skemmti mér vel á föstudaginn:) Fyrst fórum við í jólaglögg hjá Hörpu Dögg og Guðna. Það er orðinn árviss viðburður og er ekkert lítið gaman. Það var tilvalið að partýið yrði hjá þeim í ár því þau voru að flytja í glænýja íbúð. Íbúðin er sjálf mjög flott og fín en mér finnst þetta heldur langt í burtu. Við viljum helst nefna staðinn Álvershjáleiguna. Leigubílareikningurinn þaðan í miðbæinn hljóðaði líka upp á 3200 kr!!! Sem betur fer vorum við átta þannig að þetta deildist niður á fleiri hausa. En það var þó hverrar krónu virði því það er ekki á hverjum degi sem maður fer með þessum hóp á djammið. Allir orðnir svooo ráðsettir:) En ráðsettir eða ekki og belive it or not það var ÉG sem gjörsamlega dró liðið út af Nasa klukkan 6!!


d.

föstudagur, desember 19, 2003

Nú er Gunna á nýjum skónum.... Já, svei mér þá það eru að koma jól:) Ég var að koma af jólaballi í skólanum. Get þó ekki orða bundist með það að hafa jólaball klukkan 8:05 að morgni, finnst það skrítin siður. Röddin ekki vöknuð til að syngja upp á háa C. Þetta var samt gaman. 7. bekkur sýndi leikrit um jólasveina og helgileik, gengið var í kringum jólatréð og rúsínan í pylsuendanum, var að Magni úr Á móti sól kom með gítarinn og tók nokkur lög með krökkum og jú kennurum;) Stebbi og Eyfi voru í fyrra þeir voru betri, en krakkarnir voru ánægðir með Magna það er fyrir öllu. Jólaballið mitt er í kvöld þegar Sálin hans Jóns míns spilar á Nasa.......

d.

P.s. Mæli með tónleikunum með Raddbandinu, Kristjáni Jóhanns og Siggu Beinteins í Smáralind um helgina. Ég var í Hallgrímskirkju í gær og orð fá ekki líst hve flott þetta var:)

fimmtudagur, desember 18, 2003


Shiiiit! Mér stendur ekki á sama um hvað gerðist í gær. Ég hef gert það að vana að föndra með krökkunum í bekknum fyrir jólin. Nema hvað að ég var að teikna nál og tvinna (hann fékk bók og hún fékk nál og tvinna), tvinnakeflið mistókst eitthvað hjá mér svo ég strokaði það út. Allt í lagi með það, en ég sá svo eftir því að ég stóð mig að því að hugsa.... ahhhh CTRL Z og svo var ég rosa hissa og svekkt að það væri ekki hægt að öndúa!! Held að ég verði að fara í jólafrí frá tölvum.
d.

miðvikudagur, desember 17, 2003

Bróðir minn er kjálkabrotinn. Hann var að spila við Skagann á laugardag og lenti í samstuði við markvörðinn. Greyið strákurinn þarf að vera á fljótandi fæði yfir hátíðarnar. Hann er bara heima, getur ekki unnið sér inn fyrir jólagjöfum eða neitt. Skemmtilegt það. Svo má hann ekki við því að missa gramm, það hefði verið nær að einhverjir aðrir lentu í þessu:p ekki að ég sé að óska neinum að lenda í slíku;)

d.

mánudagur, desember 15, 2003


Þetta var ekkert lítið næs helgi! Kláraði bara næstum allt jólastússið:) Keypti og keypti þar til rauk úr kortinu. Ég varaði mig þó á því að eiga 2 gjafir eftir, því mér finnst algjör nauðsyn að ganga niður Laugaveginn á Þorláksmessu og eiga eftir að gera eitthvað örlítið. Þó ekkert mikið og ekki eitthvað mjög erfitt.
Þessi vika er líka frábær. Í skólanum er áfram jólasöngur, -föndur og fleira og í fimleikunum er jólasýning. En það verður samt líka frábært að fara í jólafrí.

d.

P.s. Ég sé ógeðslega eftir Rannveigu úr Idol.

föstudagur, desember 12, 2003


Ég vildi að ég gæti hækkað mín laun líkt og ráðamenn landsins gera. Mega þá ekki allir starfsmenn ríkis og bæja búast við hækkun eftir áramót:p Annars veit maður ekki hversu langt menn eiga eftir að ganga í ósvífninni.
Kvefið er komið aftur!! Ég er svo rám að Hannes spurði mig áðan hvort ég hefði verið að koma af Þjóðhátíð. Ritarinn hér vill meina að kvefið sé geymt í lofti skólabyggingar. Kannski er eitthvað til í því:p Ég hef að minnsta kosti verið veik síðan ég byrjaði að vinna hérna. Svo lagast ég um leið og ég geng héðan út á vorin. BÖl kennarans.

*hóst* d.

miðvikudagur, desember 10, 2003Þetta er langskemmtilegasti tími ársins í kennslu. Stillt börn, Kertaljós á kennaraborðinu, skemmtileg jólalög hljóma, heimatilbúin snjókorn í glugganum, kortagerð, föndur og fínerí. Muniði:)

d.

þriðjudagur, desember 09, 2003


Ég fór ekki á æfingu hjá Dísunum í gær. Hef verið að bögglast við að ná mér af verstu millirifjagigt í heimi! Á tímabili var ég næsta viss um að ég væri að fá hjartaáfall og þakkaði fyrir að vakna á morgnana. Ég fór til læknir vegna þessa og hann sagði að það væri allt of mikið álag og vinna á mér. Í nesti fékk ég svo Voltarin Rapid og ávísun upp á sjúkraþjálfun. Það var ágætt að fá þetta svona beint frá lækninum.
Ég gat þó ekki setið auðum höndum þetta ágæta mánudagskvöld. Þess í stað bakaði ég býsn af brauði. Meira segja nógu mikið til að frysta. Þá á ég bara eftir að baka horn og maregns-lakkrís kökur, uhhmmm....

d. -húsmóðir.

mánudagur, desember 08, 2003


Púfff............ Held að ég fari að hætta í Pollýönnu-leik. ÞAÐ ER ÓÞOLANDI að kenna unglingum dönsku! ,,Dögg þetta er svo erfitt" ,,Dögg ég skil þetta ekki" ,,Dögg, það er ekki hægt að skilja þetta tungumál." 8. bekkur grenjaði svooo mikið áðan að það endaði með því ég spurði hvort ég ætti ekki að taka þau á brjóstið til að þau myndu hætta þessu væli. Það þaggaði niður í þeim. Það tekur þau bara nokkur ár í viðbót að skilja að danska er skemmtileg! Ég nenni ekki að bíða eftir því. Svo einfalt er það. Ætla bara að kenna íslensku, sögu og siðfræði á næsta ári!
Annars var helgin dásamleg. Púst púst...

Jóla-d.

laugardagur, desember 06, 2003Þetta er sko búinn að vera frábær dagur. Ég er búin að þrífa, skreyta og hlusta á jólalög í allan dag. Á morgun ætla ég svo að baka og skrifa nokkur kort. Ég elska aðventuna finnst allt svo töfrandi og fallegt. Aðventuna á maður að nota til að jólast í rólegheitunum. Ég persónulega skil ekki allt þetta stress tek ekki þátt í því hef sjálf ekki verið svona róleg svo vikum skiptir.
Ég komst að því í gær hvað mér þykir óendanlega vænt um jólin og allt sem þeim fylgir. Það verður e-ð svo létt yfir öllum. Enda var ég gráti þegar samstarfskona mín sagðist hata jólin. Að fólk skuli geta sagt annað eins. Hún sagði einfaldlega að þetta væri alltof mikill fyrirgangur og stúss fyrir eina ómerkilega helgi. Mér persónulega finnst aldrei of mikið af jólastússi.

d.

miðvikudagur, desember 03, 2003Jæja! Þá eru þessi fasteignaviðskipti LOKSINS að taka enda. Þetta er það allra leiðinlegasta sem ég hef lent í!! En við erum búin að kaupa æðislega íbúð á besta stað í heimi. Vitna ég þá í Gunna Bacon: ,,Það er gott að búa í Kópavogi." Þegar við erum búin að loka þessu máli þá er loksins hægt að fara að jólast og hafa gaman. Ég er mikið að spá í að fara á eftir og kaupa rándýran aðventukrans þetta heitir sko skrautkrans og var í Byko-bæklingunum. Fara svo að grafa upp kassann með jólaskrautinu og henda því upp.
Við erum að fara á annað jólahlaðborð á föstudaginn, ég hlakka ekkert smá til. Í þetta sinn er það hjá minni vinnu. Ósköpin verða haldin í sal í Skeifunni. Það verða bara heimatilbúin skemmtiatriði og eru nær allir í einhverju.

d.