Lilypie Baby Ticker

Lady-Dee

Lady Dee á flugi.

mánudagur, ágúst 11, 2003

Vá!! Ótrúlegt en satt klukkan bara 13:00 og mín bara komin á fætur. Ég var að vísu vakin klukkan 11. Maður verður að fara að stilla lífsklukkuna öðruvísi ég er víst að fara að vinna eftir viku. Jamm bara 7 dagar eftir að sumarfríinu sem fyrir nokkrum vikum leit út fyrir að vera óendanlegt:s Það verður samt örugglega fínt þegar ég er byrjuð erfitt fyrst og allir með stírur í augum að þykjast vera úthvíldir eftir sumarið. En svo verður gaman.
Það er svona AUÐUR Í KRAFTI KVENNA dagur hjá mér í dag. Ég er sko með Erling í vinnunni! Ekki það að ég hafi keyrt með honum í Borganes í morgun ó nei.. híhí... Við vorum í mat hjá honum Þór (yfirmaður Erlings) og Guðrúnu spúsu hans í gærkvöldi. Þau búa á Skálpastöðum sem er u.þ.b. 20 km fyrir utan Borganes. Við snæddum dýrindis crépes með ýmis góðgæti. Eftir matinn kenndum við Erling liðinu drykkjuleikinn sem við lærðum á Þjóðhátíð. Það var hrikalega skemmtilegt og mikið hlegið. Þegar spilabunkinn var búinn var Party og co tekið upp. Við Guðrún skoruðum á strákana, 2 vs. 3, framan af vorum við mikið betri en strákarnir mörðu þetta á lokasprettinum. Til hamingju strákar! Þegar spilinu var lokið var kominn tími til að hvíla sig. Allir áttu að mæta í vinnu eldsnemma (jú jú nema ég). Við Erling fengum að sofa í Compy Camp út í garði, ekkert lítið sem við sváfum vel, verðum sko að fá okkur svona þegar við verðum stór. Ég held að það megi líkja þessu við að sofa í úti í vagni, rokið vaggar manni svona líka notalega.. uhhmmm... En jú eins og áður sagði var ég vakin klukkan 11:00 og keyrði í Borganes. Klukkan 12:00 fór ég í mat með Erling og vinnufélögum hans. Svo fór ég bara með þeim í vinnuna og er þar núna.
Það er skemmtilegt framundan þessa viku. Í fyrramálið fer ég til Drífu vinkonu minnar hún er búin að bjóða nokkrum kennslukonum heim. Það verður gaman að hitta þær aðeins. Maður hefur bara ekkert séð af þeim síðan á skólaslitum snemma í sumar. Á miðvikudag fer ég svo væntanlega í sumarbústað með frændsystkinum mínum. Við ætlum okkur að vera fram á föstudag. Já og svo er menningarnótt á laugardag vá fullt að hlakka til ...

d.

p.s Edda er á fæðingardeildinni núna með hríðir.... :)

föstudagur, ágúst 08, 2003

ó mæ gat!!

Hvað á ég að gera í þessu, klukkan 13:42 og það eru ekki meira en 7 mínútur síðan ég vaknaði. Samt var Erling búinn að hringja í báða símana og hann lét hringja út! Sem betur fer er ekki sól þá hefði ég dáið úr samviskubiti. Ég er eins og 17 ára unglingur sef bara á mínu græna. Það verður kannski bara gott að klára þetta sumarfrí, fara að vakna á venjulegum tíma.

If you want something to be done let busy man do it!

d.

fimmtudagur, ágúst 07, 2003

Mánudagur 4. ágúst

Á mánudeginum vöknuðum við ekki fyrr en klukkan 17:00 og fórum þá í Skýlið og fengum okkur hamborgara og tilheyrandi. Að því loknu keyrðum við í Gaujulund. Gaujulundur er jú lundur sem hún og maðurinn hennar eru að rækta í miðju hrauni. Merkilegt nokk. Þaðan fórum við til Kristínar móðursystur Sigrúnar. Ég var búin að lofa að "sýna" henni Erling og svo óheppilega vildi til að við hittum hana aldrei í dalnum. Því var ekki annað að gera en að fara þangað með manninn. Þar sátum við til að ganga 23:00 og ræddum Árna, Gerði Kristnýju, fótbolta og auðvitað Þjóðhátíð. Svo rúntuðum við aðeins um með svona hálf glatað í mallanum yfir því að Þjóðhátíðin væri bara búin. Ákváðum svo að kíkja aðeins á Prófastinn en ég minntist þess að þar hefði verið hörkustemmning á sama tíma í fyrra. En þar var bara ekkert að gerast! Bara súr stemmning. Svo það var ekki annað að gera enn að fara heim og hvíla sig. Daginn eftir vöknuðum við ekki fyrr en rúmlega 14:00! Þvílíkar þyrnirósir. Það hefði ekki mátt seinna vera því Herjólfur átti að leggja úr höfn klukkan 16:00. Við áttum nefnilega eftir að pakka. Þetta gekk þó allt vel og rétt fyrir fjögur sátum við í vidjó-herberginu í Herjólfi. Það var ótrúlega gott í sjóinn næstum eins og maður sæti inn í stofu heima hjá sér.

d.

Sunnudagur 3. ágúst

Á sunnudeginum sváfum við til rúmlega fjögur þá var ekki seinna vænna að rífa sig á fætur. Við áttum eftir að fara í heimsókn á 3 staði. Til Stellu mömmu hennar Önnu á Illugagötunni (Stella og amma mín hafa verið vinkonur síðan 1931.. dööö hvenær var það) Kristínar Ellerts vinkonu mömmu og Guðnýjar ljósmóður vinkonu mömmu hans Erlings. Við byrjuðum hjá Stellu og Einari manninum hennar. Þar var að sjálfsögðu tekið hrikalega vel á móti okkur. Stella bar endalaust á borð og þvílíkar kræsingar. Þetta var örugglega besti matur í heimi. Kannski líka vegna þess að ég hafði næstum ekkert borðað í tvo daga e-ð slæm í mallanum sko;) Eftir kaffið og smá spjall urðum við bara að halda áfram heimsóknahringnum okkar og kvöddum Stellu og Einar já og Ragga bróður hann þurfti að verða eftir út af einhverjum leik.
Næst lá leið okkar til Kristínar Ellerts, Palla mannsins hennar, Ellerts og tvíburanna. Þar sátum við í tæpa tvo tíma. Palli var í Þjóðhátíðarnefnd og reyndum við því að ná upp úr honum hvort Árni kæmi eður ei. Hann vildi ekkert segja og sagði: "Fylgist þið bara með inn í dal klukkan 23:00 í kvöld." Hann sagði okkur einnig að hann hefði verið að koma úr dalnum og hann ásamt fleirum hefðu verið að merkja þyrlupall. Hmm.. Eitthvað stórt var greinilega í uppsiglingu. Það átti allt eftir að koma í ljós. Við kvöddum hjónin og fórum á næsta stað sem var til Guðýjar ljósmóður. Þar var allt að gerast enda fullt af fólki þar. Þó náðum við smá spjalli um hitt og þetta sem tengdist að sjálfsögðu Þjóðhátíðinni. Þó töluðum við líka um Eddu vinkonu. Edda bjó nefnilega í Vestmannaeyjum síðasta vetur og svo skemmtilega vildi til að hún er ófrísk og Guðný var ljósmóðir hennar á Eyjunni björtu. Lítill heimur það. En áður en við vissum af vorum við sest til borðs með Guðnýju og fjöslkyldu. Erling með Lunda fyrir framan sig og ég súpu (ég er ekkert mikið fyrir lunda sko). Þegar við vorum búin að snæða var ekki seinna vænna að þjóta á Illugagötuna til að smyrja í tjaldið. En viti menn haldiði ekki að Raggi bróðir minn hafi bara verið búinn að þessu! Ótrúlegt hvað ég/við sluppum vel frá því að smyrja þessa helgi. En það var enginn tími til neins annars en að klæða sig í Þjóðhátíðarbúninginn og arka niður í dal. Að þessu sinni var Anna með okkur já í fyrsta sinn þessa helgi. Því miður hafði hún ekki komist hin kvöldin vegna vinnu. Við fórum að sjálfsögðu beint inn í tjald blönduðum okkur góða blöndu og fórum því næst upp í brekku. Þar sátum við og biðum spennt eftir þyrlunni. Klukkan rétt rúmlega 23:00 flaug þyrla inn í dalinn. Þessu hefði ég ekki trúað! Hún lenti ekki en flaug það lágt að mörgum fannst of mikið. Það kom enginn Árni út úr þyrlunni en það kom sending frá honum. Böggull sem innihélt sendibréf, söngtexta og snældur. Bréfið var svo lesið upp í dalnum og fannst mörgum það of harðort:

„Kæru þjóðhátíðargestir við höfum gert allt sem í okkar valdi hefur staðið til þess að ég gæti verið með ykkur á þjóðhátíð að venju en við höfum þurft að glíma við menn sem fyrirlíta fólk og gera allt sem þeir geta til þess að gera lífið leiðinlegt. Þyrlan á vegum þjóðhátíðarnefndar var klár fram á síðustu stundu en gítarinn og brekkusöngvarinn fengu ekki grænt ljós til ferðar og þess vegna flytur þyrlan ykkur aðeins skilaboð mín og óskir um góðan þjóðhátíðarendi í nótt.

Kæru vinir, þótt að rigni eldi og brennisteini á næstu þjóðhátíð 2004 þá get ég lofað ykkur því að á næstu þjóðhátíð verð ég klár á mínum stað með ykkur í brennusöngnum. Því lofa ég og því lofar þjóðhátíðarnefnd Vestmannaeyja ef Guð lofar.

Það bítur hrikaleg að geta ekki verið með ykkur, en við látum ekki leiðindapúkana ráða ferðinni til lengdar. Ég er stoltur af ykkur og veit ekki hvernig þessi jörð væri ef ekki væri hresst og kraftmikið fólk eins og þið.

Við skulum heita hvert öðru því að hittast á þjóhátíðinni 2004 öflugri en nokkru sinni fyrr með vinum og vandamönnum, því saman sigrum við allt pakkið sem er að reyna að stjórna öðru fólki með valdi. Nú klárið þið vaktina og ég hlakka til að hitta ykkur að ári. Þið eruð frábær!

Vinarkveðja Árni Johnsen

Þannig var nú það. Svo stjórnaði Róbert brekkusöngnum. Hann stóð sig ágætlega strákurinn. En ef ég á að fara að gagnrýna e-ð þá finnst mér að hann hefði mátt vera með lagalista yfir lögin sem hann ætlaði að spila fyrir framan sig. Hann lenti aðeins í því að taka sömu lögin oftar en einu sinni. En jú enginn er smiður í fyrsta sinn.
Þegar brekkusöngnum var lokið fór ég á smá rölt með Önnu og Erling var upp í tjaldi á meðan. Eftir röltið fórum við og náðum í Erling og kíktum á Gunnar bróður Önnu og Laufeyju konu hans. Þar voru fyrir fyrrnefnd Stella og Einar. Við stoppuðum bara stutt við þar og héldum áfram sem leið lá á Ástarbrautina til Kristínar og Palla. Þar sátum við í þó nokkurn tíma en ákváðum svo að við bara yrðum að fara á dansgólfið. En það hafði aðeins verið útundan í þessari ferð. Það er alltaf gaman að dansa og tókum við líka eftir að ýmis ný kunnuleg andlit höfðu bæst í hópinn. Þarna var komin Eva frænka, Óli Boggi hárgreiðslumaður, Sunna og Ívar, Agnes frænka Evu (og dóttir Höbbu í Ekkó) og Friðjón félagi. Hrikalega gaman að fá þau! Við dönsuðum og djömmuðum langt fram á morgun eða allt þar til þetta var orðið það súrt að allir voru bara að reyna að þrauka sem lengst.

d.Laugardagur 2. ágúst.

Þegar klukkan var 14:00 gat ég ómögulega sofið lengur og fór því á fætur. Raggi var vaknaður og farinn eitthvað út (vorum 3 í herbergi) en Erling var mjög þreyttur og hélt áfram að sofa. Ég fór niður í smá spjall við Önnu og krakkana en þó bara stutt því ég vildi drífa mig í hinar og þessar heimsóknir. Ég byrjaði á því að fara til Kristínar móðursystur Sigrúnar vinkonu. En það er fastur liður á Þjóðhátíð að ég fari þangað. Þar sat ég sem fastast til að ganga 18:00. Þegar "heim" var komið sat Erling inn í eldhúsi ásamt Elísabetu Joð vinkonu Dagnýjar. Um leið og ég gekk inn í eldhúsið steinþagnaði hún svo ég sagði: "Hvað voruð þið að ræða?" Elísabet, sem var e-ð óvenjulega völt á fótunum, svaraði: "Strákar eru tilfinningalausir" og bætti svo við að bragði "Allir strákar eru tilfinningalausir nema kærastinn þinn." Ég spurði hvers vegna hún væri svona þvoglumælt og hún sagðist ekkert í því skilja. En það gæti verið út að því að það var alltaf verið að kasta til hennar nýjum bjór og þegar hún fékk nýjan varð hún að þamba þann sem hún var með í höndinni... hí hí.. Svo fór hún út til hinna tjaldbúanna í garðinum. Ég kíkti út um gluggann og sá að Dagný var þar ekki. Hún hafði farið með krakkana inn í dal dugleg var hún. Upp úr 21:00 vorum við Erling búin að sturta okkur og röltum inn í dal. Leiðin lá beint inn í tjald þar sem við sátum í drykkjuleikjum í hátt í 3 tíma. Þetta var mjög skemmtilegur leikur því hann er sambland af öllum drykkjuleikjum sem maður hefur lært í gegnum tíðina. Það þarf þó aðeins þrennt í hann: góðan drykk helst sem hægt er að þamba, góðan hóp og spilastokk. Svo dregur maður efsta spilið og það ákveður hvaða leikur skal tekinn í þetta sinn. Meget sjovt. Það var fyrst rétt fyrir miðnætti sem við fórum út úr tjaldinu og upp í brekku jú flugeldasýningin hefst á miðnætti. Sýningin var að vanda mjög flott. Þegar henni var lokið fórum við í heimsókn í nammitjaldið hjá Brynju skólasystur minnar úr MK. Þar gæddum við okkur að sjálfsögðu á sælgæti á meðan við ræddum við Brynju og Sveinka manninn hennar. Hún var e-ð óvenju breið um sig miðja þessa þjóðhátíð;) en lét það þó ekki stoppa sig. Þegar ég spurði hana sagði hún að það væri alveg eins gott að vera ófrísk á þjóðhátíð og hvar annars staðar. Alveg er ég sammála henni.
Þegar út úr tjaldinu var komið heyrðum við skemmtilegt gítarspil e-sstaðar í nágrenninu við gengum að sjálfsögðu á hljóðið og læddum okkur inn. Þarna vorum við komin í tjaldið hjá Sæsu Vídó, frænku hennar Dæju vinkonu, já kennda við Vídó því pabbi hennar var vítaspyrnukóngur í gamla daga. Þarna var sannarlega gleði, glaumur, gaman allir syngjandi af hjartans list. Í tjaldinu voru einnig nokkrir starfsmenn PoppTÍVÍ að taka upp. Þegar allir voru búnir að fá nóg af veru þeirra var sungið fyrir þá (lag við drekkum Jameson) "Verið blessaðir, verið blessaðir þetta er syngjandi fjölskylda, verið blessaðir, verið blessaðir þetta er syngjandi fjölskylda." Þeir létu segjast og hurfu út í nóttina. Við hin héldum þó áfram að syngja og syngja og þegar klukkan var að nálgast 03:00 fannst okkur Sæsu alveg tilvalið að hringja í Dæju og syngja svolítið fyrir hana líka. Greyið ófrísk upp á landi. Ó mæ gat held að við höfum hringt 3 eða 4 sinnum út og ekkert svar (skrítið). En við dóum ekki ráðalaus og ákváðum að syngja bara samt fyrir hana inn á talhólfið: (lag: Ó, Gunna) "Ó Dæja, elsku Dæja mín... Þú ert allaf pæja svo ólétt og fín. Það er engin engin önnur Dæja æðisleg sem þú ó elsku Dæja farð að springa nú." Svo var hlegið dátt þegar þessu var lokið fannst okkur Erling nóg komið í bili og báðum að fá "Vertu blessaður.." sönginn. Hann fengum við og héldum út í nóttina í næsta tjald. Næsta tjald var tjaldið þeirra Kristínar Ellerst og Palla Scheving. Þau eru vinafólk mömmu og pabba. Þar sátum við og Erling gæddi sér á lunda. Ég veit ekki hvað klukkan var orðin þegar við ákváðum að kíkja aðeins á dansgólfið en það skiptir ekki öllu en amk var klukkan orðin 08:00 þegar við héldum heim þetta kvöld. Enda frábært kvöld og í alla staði vel heppnað.

d.


Þjóðhátíð:

Föstudagur 1. ágúst.

Ég vaknaði eldsnemma (klukkan 9:00) *hóst* og fór með Ragga bróður í Og vodafone og ríkið. Í Ogvodafone hafði ég nefnilega keypt stakka í stíl daginn áður því þeir reyndust of stórir á bæði Ragga og Erling og í ríkið til að kaupa vín fyrir Ragga. Við Erling þurftum ekkert að kaupa þar áttum nægar birgðir eftir 3 utanlandsferðir:p
það var svo klukkan 10:30 sem ég lagði í hann, brunaði og náði í Díönu og Eygló vinkonu hennar sem bættist í hópinn á síðustu stundu. Mamma skutlaði Dagnýju systur og var aðeins á undan okkur. Það var ótrúlega þægilegt því reglulega fékk ég upphringingar: ,,Dögg það er lögga hjá Rauðavatni" og nokkrum mínútum seinna ,,Það er lögga í þrengslunum". Fínir þessir farsímar sérstaklega þegar maður er að verða of seinn;) Klukkan 11:45 brunaði ég inn í Herjólf, fékk mér svo koju og reyndi að sofna. Það hefði nú átt að vera auðvelt en því miður var e-r mjööög þreyttur eða veikur krakki rétt við hliðina á mér sem var hreint ekki ánægður. Jammm grenjaði úr sér lungun alla leiðina. Ég reyndi mas að halda fyrir eyrun en bara gat ekki sofnað. Klukkan 14:30 gafst ég upp á því að reyna að festa blund og lagði leið mína upp á þilfar. Ég var svona aðeins sloj en þó hafði ég tekið sjóveikistöflu. Upp á þilfari hitti ég mikið af veiku fólki, það undraði engan því það var svo mikil undiralda. Fólk sat náfölt um allt með dallana sína, mikið var ég fegin að hafa verið í koju.
Þegar til Vestmannaeyja var komið fór ég beint upp á Illugagötu til að heilsa upp á Önnu og Jón Berg og börnin þeirra þau Einar Örn, Andra Má, Arnar Frey og Rakel Ýri. sem við ætluðum að dvelja hjá um helgina. Stuttu seinna kom Dagný systir og vinkonur og ég tók þær í útsýnisferð um bæinn sem endaði á Café Maríu. Þar fengu stúlkurnar sér pizzu á meðan ég gæddi mér á kjötsúpu að hætti ömmu. Að því loknu lá leið okkar aftur upp á Illugagötu og þar ætluðum við að hjálpa til við að smyrja samlokur og fl. til að hafa í hvíta tjaldinu. En viti menn við fengum bara ekkert að hjálpa, Anna var næstum búin að þessu sjálf.
Þegar klukkan var farin að nálgast 20:00 rölti ég inn í dal ásamt; Dagnýju, vinkonum, Arnari Frey og Rakel Ýri. Þegar þangað var komið settumst við inn í tjald í smá spjall og héldum svo upp í brekku á kvöldvöku. Þar hittum við Kópavogsbúana Lindu og Bjarnveigu og hlunkuðumst hjá þeim í rigningunni. Það voru alltaf að koma brjálaðar dembur inn á milli og ákvað ég því að fara með krakkana inn í tjald. Það er ekki laust við að það hafi komið smá vonleysi upp í hugann og minntist ég síðastliðnar Þjóðhátíðar þegar rigndi stanslaust alla helgina. En spáin sagði þó að veðrið ætti að ganga fljótt yfir. Það var svo rétt rúmlega ellefu sem Raggi og Erling mættu í dalinn. Það var ekkert lítið gaman að fá þá, mér fannst ég búin að vera heila eilífð í Vestmannaeyjum án þeirra híhí. Fljótlega eftir það sendum við börnin heim í bekkjabíl og röltum sjálf upp í brekku því það var stutt í brennu. Eftir brennuna dönsuðum við af miklum móð á milli þess sem við fórum inn í tjald og fengum okkur rækjusamloku og heimsóttum hitt og þetta fólk í hvítu tjöldin. Það á eftir fórum við í Veitingatjaldið og fengum okkur sveittan burger og franskar. Það er ekki til frásögu færandi nema við hittum manninn með talandi apann. Heyrst hefur að hann sé alltaf með apann á þjóðhátíð og að apinn tali bara, ekki maðurinn sjálfur. Ég prófaði að tala við manninn en apinn svaraði mér alltaf.
Það var ekki fyrr en klukkan 07:00 sem okkur fannst komið nóg og við röltum af stað á Illugagötuna til að festa blund.

d.