Lilypie Baby Ticker

Lady-Dee

Lady Dee á flugi.

fimmtudagur, júlí 31, 2003

Góðan dag góðan dag.....

Allir búnir að fá glaðningana sína frá skattinum? Bara smá öfund Því ég þarf ALLTAF að borga skil þetta ekki:s Ég ætlaði nú að geyma að opna bréfið þar til fram yfir helgi. En bara gat það ekki varð að kíkja.
Það þýðir svo sem ekkert að vera að svekkja sig á þessu maður þarf víst að borga alveg þar til maður er búinn að steypa sér í nógu miklar skuldir. En nóg um það! Á sama tíma á morgun verð Ég í Vestmannaeyjum:) Ég hlakka ekkert lítið til gaman líka að fara með Erling mínum. Við Díana, dótið og bíllinn förum í hádeginu á morgun en Erling og Raggi leggja í hann klukkan 19:30. Það er mikið betra því þá geta þeir bara mætt beint í dalinn og ná þannig vonandi brennunni sem hefst klukkan 24:00. Það er víst e-ð vesen með hvíta tjaldið okkar, það nennir engin að tjalda. Ég er bara á fullu núna að reyna að redda góðum tjaldara. Það er ekki hægt að vera þarna án þess að vera með hvítt tjald, ekki þegar maður er orðin vanur því og svona. Ég vildi að ég hefði bara farið fyrr sjálf og komið þessu tjaldi upp en það þýðir víst ekki að tala um það núna. En já já ferðasögur fáiði ekki seinna en á mánudag við skulum þó sjá hvað ég get gert um helgina...

Gleðilega Þjóðhátíð:o)

d.

miðvikudagur, júlí 30, 2003

I'm Rachel Green from Friends!

Take the Friends Quiz here.

created by stomps.Í dag er nákvæmlega vika síðan við Erling komum heim frá Costa del Sol. Það var yndislegur tími. Það sem maður þurfti að hugsa um var:
A) Hvaða sólarvörn eigum við að nota í dag?
B) Hvað eigum við að borða í kvöld?
C) Activities.
D) Djammið.

Gæti vart verið áhyggjulausara líf.

A) Sólarvarnir:

Ég byrjaði í sólarvörn 25 á axlir, bringu og andlit en 12 á aðra líkamshluta. Fór svo fljótlega í 6 en var í 2 síðustu dagana.

Erling byrjaði á 25 fór svo í 12 en var í 4 síðustu dagana.

B) Veitingastaðir:

TEX-MEX
Fyrsti veitingastaðurinn sem við heimsóttum var, Tex Mex, mexíkanskur staður. Þetta var hvað vinsælasti staðurinn okkar Jóhönnu þegar við vorum á sama stað fyrir 2 árum síðan. Það besta við hann er frosin Margarita. Ég hef aldrei smakkað jafn góða, hún er svo fersk að maður finnur greinilega fyrir fræjum úr ferskum jarðarberjum í hverjum sopa! Við fengum okkur að sjálfsögðu nokkrar svoleiðis.

EL TORO
El Toro, er steikhús. Ívar og Klara kynntu okkur fyrir því. Húrra fyrir þeim! Ég hef ekki borðað á Argentínu en "Herre Gud" enginn fær mig til að trúa því að steikurnar á El Toro standist ekki samanburð. VIð fórum þangað tvisvar og fengum okkur nr. 47 í bæði skiptin:) Nr. 47 er besta piparsteik í heimi borðin fram með bakaðri kartöflu með himneskri hvítlauksdressingu, belgbaunum og piparsósu! Ekki spillti það fyrir að á El Toro er hægt að velja úr úrvali vína frá uppáhaldsvínhéraðinu okkar Erlings Rioja.

TAPAS
Við fórum ásamt Birnu og Elíasi á mjög góðan tapas-stað og fengum fullkomna rétti. Fyrst komu ansjósur sem Erling ætlaði ekki að fá nóg af:p Þá krabbafætur og krabbasalat, þar á eftir gúllassúpa, kjúklingur í hvítlaukslegi og að síðustu kjötbollur.

DEN LILLE HAVE
Síðasta kvöldið fóru allir Íslendingarnir á TEX-MEX en okkur langaði meira e-ð grand. Þess vegna varð danskur huggulegur staður fyrir valinu. Staðurinn er eins og nafnið gefur til kynna í litlum krúttlegum garði. Eina lýsingin kemur frá litlum olíulömpum á borðunum. Við fengum dýrindismat. Í forrétt fékk ég mér laxamús og Erling makrílsalat (það minnti mig bara á frystihúsið á Skagen, sagði honum það ekki þá). Í aðalrétt fengum við okkur bæði okkur Cordon Blue með gráðostasósu. Mjög gott en allt of stór skammtur:p

C) Activities:

Við vorum nú ekkert sérlega dugleg í þessum flokk. Við fórum þó í Aqua-park ásamt Ívari og Klöru. Ég fór því miður bara í eina rennibraut var sko *hóst* e-ð þunn þennan dag. Ég sem elska svona garða *sniff*. En ég gat þó tekið nokkra myndir af Erling og Ívari leika sér. Þegar ógleðin var farin að segja of mikið til sín tóku þeir bara myndir sjálfir. Ívar er svo heppinn að eiga svona vatnshelt-box utan um myndavélina sína, þannig hann gat bara farið með hana sjálfur í rennibrautirnar. Ekkeðd ðmá ðniðugt;)

Við fórum ekki í Tívoli í þetta sinn. Ætluðum alltaf en það varð bara e-nveginn ekkert úr því. Í staðinn fórum við þó í frábæra ferð með svona kláf upp á fjall. Ferðin tekur 12 mínútur og það er alveg hægt að kyssast án þess að það sjáist úr öðrum kláfum:p Þegar upp var komið var hægt að halda áfram upp á topp fótgangandi. Með okkur í för var landsliðskona í handbolta og hún fór upp á e-m mettíma. Við hin hefðum þurft öndunarvél þegar við loks skriðum á leiðarenda. Ég var sko líka í síðu pilsi og gat bara tekið lítil skref (vissi sko ekki af þessu labbi). Þegar búið var að festa Torremolinos á filmu (já eða e-ð minniskort) passaði akkúrat að sjá e-a tamda fugla leika listir sínar. Áhorfendur sátu í brekku og voru fuglarnir alltaf látnir fljúga eins lágt og mögulegt væri yfir áhorfendur. Þetta voru sko ekkert venjulegir fuglar. Svo var einnig gengið með einn á milli áhorfenda og hann látinn setjast á höfuð nokkurra. Ég fékk í magann og upp í hugann skaut minning um kríuna sem réðst á mig í Mýrdalnum fyrir 13 árum síðan og þessi var sko mikið stærri. Erling, sem var sallarólegur, sagði mér að setja bara sólgleraugun á höfuðið og þá yrði ég látin í friði. Hann sjálfur var til í tuskið og vildi endilega fá fugl á hausinn oj!!! En viti menn það stendur víst e-ð á mér því jú auðvitað varð ég fyrir valinu. Skyndilega var ég með e-n risa Fálka á höfðinu! Hann var sko mikið stærri en Máni-Kisa og klærnar á þessu! Týpískt ég:( En sem betur fer lifði ég af. Fuglasýningin endaði á því að öll börn fengu að halda á snæuglu svona Harry Potter uglu. Að því loknu fórum við aftur niður ég var pínu hrædd þá mikið verra að fara niður en upp finnst mér. Daginn eftir fréttum við að tveir kláfar hefðu fokið af í fyrra í e-u roki þeir bara duttu af. Hefði sko ekki farið ef ég hefði vitað það:s Mæ gat hvað ég er orðin mikil kelling:p

Svo var það sveitaferð/skemmtikvöld Heimsferða. Ég hafði jú farið áður en var alveg til í að fara aftur það var það gaman síðast. Það kom rúta og sótti okkur klukkan 18:30 og keyrt var upp að búgarði upp á litlu fjalli. Fyrst var boðið upp á fordrykk og snarl. Þar á eftir hófust ýmis leikir og þmt "nautaat" ég fór fyrir 2 árum og varð öll marin og blá á eftir og var ákveðin í að láta ekki plata mig í þetta sinn. En ég var þó með fulltrúa í hringnum í þetta sinn. Jú, Erling skellti sér og stóð sig eins og hetja. Hann lenti að vísu í því að detta beint á rassinn;) en það var eftir góða rispu með nautinu (kálfinum). Fallið var það flott að frægt er orðið og erum við að bíða eftir að fá myndband af ósköpunum. Þegar flestir voru komnir með nóg af nautaati var sest til borðs. Maturinn var svo sem ekki upp á marga fiska og varla vínið heldur en félagsskapurinn var góður. Eftir "borðhald" tók við Flamingo-sýning og þar á eftir íslenskir þjóðdansar gesta. Rétt um miðnætti var keyrt aftur niður af fjallinu til Torremolinos. Þá fóru flestir heim en við Erling héldum áfram langt inn í nóttina.

D) Djammið:

Auðvitað var djammað aðeins. Maður fer varla til sólarlanda öðruvísi. Fyrsta kvöldið okkar kíktum við bara rétt til að taka púlsinn. Ívar og Klara voru með okkur framan af. En svo skildu leiðir, þau fóru heim en við á Viking-bar. Við Jóhanna vorum einmitt mikið þar fyrir 2 árum þess vegna var gaman að fara aftur. Ég mundi þó minna eftir barnum en meira eftir Alfredo sem á staðinn. Alfredo er Spánverji sem talar 8 tungumál og m.a. ágætis íslensku. Það var svo skrítið að þegar við Erling fórum í fyrsta sinn í ferðinni á Viking-bar þá var eins og allt væri eins nema jú annar samferðamaður. Ótrúlegt en satt en Alfredo mundi eftir mér! Svo fór hann að spyrja um Jóhönnu og hann mundi m.a.s. hvað hún gerir. Vá hve margir ætli komi þarna ár hvert. En ekki nóg með að Alfredo þekkti mig aftur heldur voru sömu Íslendingar þarna og síðast. Bjöggi með gítarinn, sætar stelpur í spönskunámi á Malaga og Gummi ekki lengur í gipsi en með gott ör eftir að hann lét sig gossa eða datt niður e-a hlíð á fylleríi. Hann hrópaði: "Nei, þarna er einkaþjálfarinn." Ótrúlegt eins og maður hefði aldrei farið.
Daginn eftir var frekar rólegt djamm bara við fórum út að borða með Ívari og Klöru og ætluðum svo að hitta Birnu og Elías á hótelinu eftir mat og gera e-ð sniðugt. Þetta sniðuga var að spila Party og co. fínt að nota það fyrst við Erling lögðum það á okkur að bera það frá Íslandi. Það er skemmst frá því að segja að það voru stelpur á móti strákum. Strákarninir unnu naumlega við vorum einmitt að finna taktinn þegar þeir báru sigur á hólmi. Þegar við hættum að spila var kjaftað fram á rauða nótt mjög skemmtilegt kvöld það:)
Skemmtilegtasta djammið í ferðinni var án efa dansdjammið með Birnu og Elíasi. Við fórum í fyrst út að borða þau á El Toro en við í danskan pylsuvagn. Við ætluðum að hittast á Viking klukkan 22:30 en viti menn hálftíma fyrir hitt rákumst við á þau fyrir tilviljun. Það á e-m pínulitlum bar inn á milli húsa. Þá byrjaði fjörið! Við fórum á hvern staðinn á fætur öðrum og drukkum hvert glasið/skotið á fætur öðru. Stemmningin náði hámarki þegar við Birna tókum gömul eróbikk spor á einum staðnum! Þegar stöðunum lokaði dóum við ekki ráðalaus fundum eina staðinn sem var opinn enn (kl 6:00) keyptum fullt af bjór fengum poka og gengum niður á strönd. Þar slógum við upp okkar eigin strandpartýi. Við Birna sungum, þrátt fyrir að vera báðar orðnar hásari en anskotinn, Erling tók intróið og Elías horfði á. Hí hí. Ótrúlega vel heppnað kvöld í alla staði.

d.

Erling skrifar:

Nóttin fyrir brottför var svefnlítil – við eyddum kvöldinu í að pakka og láta Sigrúnu Ernu dekra aðeins við okkur í litun og plokkun. Já, það voru ekki bara konurnar í þetta sinn, heldur tókum við Eyjó líka þátt í því – heldur betur laglegir eftir aðgerðina…

Við lögðum okkur í klukkutíma áður en Inga og Eyjó komu og sóttu okkur. Þá var klukkan aðeins 04:20 og Jói Fel ekki einu sinni kominn á fætur. Markmiðið var að verða á undan rútunni til Keflavíkur og sleppa þannig við alla túristaröðina ;) Það hafðist, og eftir morgunmat og smá búðaráp skildu leiðir við Ingu og Eyjó; við flugum til Malaga og þau til Benidorm.

Flugferðin var sannarlega af verri endanum. Flugfélagið var spænskt, Azurra eða eitthvað álíka, og starfsfólkið allt spænskt líka fyrir utan flugfreyjuna Ingibjörgu sem þarna var fulltrúi íslensku þjóðarinnar. Ég kannaðist reyndar við hana frá fornu fari, síðan ég vann með henni í Jafningjafræðslunni 1995, en flugferðin skánaði lítið við það ;) Flugmaðurinn fór með vélina eins og hún væri gamall Saab – sveigði henni til hliðar eins og ekkert væri, og gaf inn í beygjunum. Ég hélt ég myndi fá magann upp í háls í sumum æfingunum sem hann var að stunda… flugfreyjurnar báru á meðan þessu stóð fram vonda eggjahræru sem við afþökkuðum kurteislega. Okkur hefur nú líka sjaldan reynst erfitt að sofa á meðan ferðalögum stendur, en það gekk dæmalaust illa í þetta sinn – húsgögnin í vélinni voru sérlega illa til þess fallin að festa í þeim svefn.

Í Malaga var 32°C hiti þegar við lentum, alveg eins og flugmaðurinn hafði tekið fram í einleiknum sem hann fór með í hátalarakerfið á meðan flugi stóð. Hann var sko svona túrista-gæd og flugmaður í einum pakka. Okkur gekk vel að endurheimta farangurinn og svindluðum okkur svo í Heimsferða-rútuna sem skutlaði okkur upp á hótel.

Við vorum ekki fyrr búin að ljúka upp hurðinni en síminn hringdi – hinumegin á línunni var Ívar, sem sagði okkur að þau Klara væru á ströndinni og við gætum hitt þau þar. Við töltum þangað og eyddum með þeim rúmum þremur tímum í sólinni þennan fyrsta dag – og sólarvörnin var sko skrúfuð í botn (í það minnsta af herramanninum ;)

laugardagur, júlí 12, 2003

Halló, gott fólk:) vegna taeknilegra orduleika hofum vid ekki getad skrifad inn eins og vid aetludum okkur:( Svo er lika svoooo gaman og mikid ad gera. Ef tid viljid senda okkur sms ta er spaenska numerid okkar:

+346-64 55 77 127

´Ble ble í bili:)
d.

miðvikudagur, júlí 09, 2003

Jæja þá er klukkan orðin 01:45 og aðeins rúmir 2 tímar þar til Inga og Eyjó sækja okkur. Við enn að pakka:p sumt bara breytist greinilega ekki. Ég sem var svo dugleg að pakka í dag sraujaði m.a.s. og allt. Já rúmir 2 tímar og það segir mér að það sé tími til að sofa örítið á hausinn á sér.

d.

þriðjudagur, júlí 08, 2003

Það var sko dekurdagur í gær. Ég fílaði mig eins og stjörnu frá Amríku sem hefur ekkert annað við tímann að gera en að vera í bjútítrítmentum. Ég byrjaði á gervinöglum, þá tók við andlitsbað og að lokum heitsteinanudd. Umm... Yndislegur dagur ég þakka mínum manni fyrir mig:p

Jæja brottför nálgast óðum. Bara eftir að pakka. Allur þvottur mas orðinn hreinn! Ég var líka hrædd um að gamla Bosch vélin myndi bræða úr sér. Er sko búin að þvo 10 vélar síðan á föstudag, nánast bara af mér *roðn*. Þannig lífið hefur gengið út á að hengja upp og brjóta saman, hengja upp og brjóta saman. Púff það er erfitt að eiga svona mikið af fötum (en ógi gaman). Gaf þó tvo stóra poka á dögunum og vona að Afríku-búar geti sprangað um í Daggarjökkum, -peysum og -skóm.
Á sama tíma á morgun verðum við að lenda! Þannig það styttist óðum í sangria, strönd og sól:)

d.

[ Mon Jul 07, 07:10:17 PM | Dogg Gunnars | edit ]
Góðan dag góðan dag.....

Hér munu birtast ferðasögur þó fyrr hefði verið:p
Ævintýrið mun hefjast á miðvikudag....

Góða skemmtun!

d.